Thursday, April 14, 2011

Hræsni

Íhaldsmaðurinn Ásmundur Einar Daðason yfirgaf ríkisstjórnina í gær og gerði á eins dramatískan hátt og aðstæður buðu honum, í atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórnina. Hann eins og Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir stökk frá borði kvæsandi rullur um foringjaræði og heilaga andstöðu sína við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.

Það er undarlegt að þremenningarnir skuli ekki sjá hræsnina í eigin málflutningi. Þeir Atli og Ásmundur geta ekki á heilum sér tekið vegna aðilarumsóknarinnar. Engu að síður hafa stofnanir Vinstri grænna samþykkt stjórnarsáttmálann þar sem gert var ráð fyrir aðildarumsókninni og meirihluti Alþingis samþykkti aðildarumsóknina. En þeir félagar sem kenna sig við bætt lýðræðisleg vinnubrögð og saka Steingrím J. Siugfússon um foringjaræði, mega ekki hugsa til þess að landsmenn fái að greiða atkvæði um aðildarsamning að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hver hefur gert Atla og Ásmund að foringjum landsins í þessum efnum? Hvor um sig er í mesta lagi með örfá þúsund atkvæða á bakvið sig sem þingmenn. Hvaðan kom þeim foringjavaldið til að ákveða að þjóðin megi ekki undir nokkrum kringumstæðum  meta sjálf kosti og galla aðildarsamnings og greiða um hann atkvæði?

Tvískinnugurinn er svo augljós og æpandi að það er ekki hægt að taka mark á svona mönnum, sem annað hvort eru með opnum augum að verja mjög þrönga og ímyndaða hagsmuni bændastéttarinnar, eða eru slegnir slíkri þjóðernisblindu að þeir eiga ekkert erindi í sósíalískum flokki.

Sovéthagfræði Lilju Mósesdóttur og blint hatur hennar á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er síðan kapituli út af fyrir sig. Kennitölukenning hennar um íslensku krónuna er eitt mesta bull sem litið hefur dagsins ljós í hagfræði. En frekjan og yfirgangurinn býður henni að segja öllum til syndanna þegar meirihluti fæst ekki fyrir skoðunum hennar. Ekkert foringjaræði þar á ferð eða hvað?

Ríkisstjórnin er auðvitað veik með eftirhreiturnar af órólegu deildinni enn í þingflokknum, þau Guðfríði Lilju Grétardóttur og Jón Bjarnason undir forystu Ögmundar Jónassonar. Best væri ef stjórninni tækist að fá stuðning þriggja til fjögurra þingmanna úr Framsókn og Sjálfstæðisflokki sem styðja Evrópusambands viðræðurnar, stjórnlagaráð og breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og VG klofnaði formlega. En ólíklegt er að það sé í boði.

Ríkisstjórnin verður því væntanlega að skrölta áfram með þessi lík í lestinni.

Garðar Hólm

Wednesday, April 6, 2011

Sigur þess að segja nei við umheiminn

Þegar Icesave samningarnir hafa verið felldir og ríkisstjórnin farin frá eins og rök kveða til, blasir eftirfarandi staða við:

1) Fiskveiðistjórnunarkerfinu verður ekki breytt. Fiskurinn í sjónum verður áfram í eigu 50 - 60 einstaklinga á Íslandi.

2) Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dagar uppi og fjarar út, ef hún verður ekki beinlínis kölluð til baka á fyrsta degi endurnýjaðrar ríkissstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

3) Nýir kjarasamningar verða einungis gerðir fram til áramóta. Lágmarkslaun munu ekki hækka og samið verður um litla hækkun launa almennt.

4) Íslenskar stofnanir og fyrirtæki geta ekki vænst eðlilegrar lánafyrirgreiðslu frá bönkum og sjóðum í öðrum löndum um ófyrirséða framtíð. Vextir á lánum sem þrátt fyrir allt fást verða langt yfir markaðsvöxtum.

5) Málaferli vegna Icesave munu standa yfir í 3 til 10 ár og alger óvissa ríkja um niðurstöðuna.

6) Töluverðar líkur eru á að ESB muni lýsa því yfir að Ísland uppfylli ekki lengur helstu stoðir samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og því sé samningurinn gagnvart Íslandi ógildur.

7) Fjórfrelsið um frjálst flæði fjármagns, vinnuafls osfv. milli Íslands og annarra ríkja Evrópu verður í raun ógilt þar sem aðrar þjóðir hætta að taka mark á því, þar sem engar stofnanir ESB munu lengur líta á Ísland sem hluta samningsins. Skólagjöld íslenskra námsmanna í Evrópu munu hækka og þeir verða fyrir fjöldatakmörkunum.

8) Möguleikar íslenskra háskóla og rannsóknarstofnana á styrkjum og samvinnu við evrópskar menntastofnanir munu minnka til muna.

9) Íslenska krónan verður áfram gjaldmiðill landsins. Ef höftum á henni verður aflétt mun gengið falla um tugi prósenta sem mun koma íslenskum útgerðarfyrirtækjum í eigu 50 - 60 manna mjög til góða og þeir verða ríkari sem aldrei fyrr.

10) Enginn erlendur banki mun vilja eiga íslenskar krónur eða gera samninga sem bundnir eru íslensku krónunni. Allir viðskiptasamningar við önnur ríki og fyrirtæki í öðrum ríkjum verða að eiga tryggingar í reikningum með erlendum myntum inn á bönkum í öðrum löndum en Íslandi þar sem íslenskum bankastofnunum verður ekki lengur treyst.- Fjárfestingar í atvinnulífinu, hvort sem um er að ræða stóriðju eða gagnaver og græna atvinnustarfsemi, munu ekki njóta fyrirgreiðslu eða stuðnings erlendra aðila nema með meirihluta eignaraðild eða ráðandi hlutfalli í stjórn fyrirtækjanna.

Þetta eru bara tíu borðliggjandi dæmi, vegna þess að það er svo vinsælt að leggja fram tíu atriði um Icesave þessa dagana, en afleiðingar Nei-sins eru miklu fleiri, afdrifaríkari og ófyrirsjánlegri.

En það er mikilvægast að vera sjálfstæður á heiðum uppi eins og Bjartur  -hann borgaði aldrei skuldir óreiðumanna niður við ströndina.

Garðar Hólm

Miklar líkur á stjórnarslitum um helgina

Flest bendir til að hatursfullur og rangfærður málatilbúnaður svo kallaðs Nei-liðs hafi náð tökum á særðri og reiðri þjóðinni og dregið nægjanlega ull fyrir augu meirihluta hennar að þriðju Icesave samningarnir verði felldir á laugardag. Þar með hafa kjósendur tekið undir vandtraust Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands á þinginu og ekkert annað fyrir forsætisráðherra að gera en segja af sér og óska eftir því að forsetinn að þing verði rofið og boðað til kosninga.

Eins og þeir sem fylgst hafa með stjórnarskrárbreytingum forsetans undanfarin misseri gera sér grein fyrir, er alls ekki víst að forsetinn verði við þessari beiðni forsætisráðherra. Mun líklegra er að sögufíkillinn Ólafur Ragnar sjái enn einn leik á borði við að skrá sig á spjöld Íslandssögunnar, með því að draga upp listann sinn yfir utanþingsráðherra.

Í kurteisisskyni mun hann fyrst athuga ef hægt verður að mynda annan meirihluta á þinginu, sem ekki verður hægt ef þingflokkar núverandi stjórnarflokka vilja ekki í nýja stjórn. Þá mun forsetinn til málamynda spyrja forystu núverandi stjórnarflokka hvort þeir gætu hugsað sér að verja minnihlutastjórn falli. Ef svarið við þeirri spurningu er einnig nei, mun hann skipa utanþingsstjórn og fara þar með eins og oftast áður eftir þeirri rödd frá lýðnum sem hann telur líklegasta til að afla honum fylgis til endurkjörs í júní á næsta ári og gleymsku á klappstýruhlutverki hans í útrásinni.

Það yrðu mikil mistök hjá Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni að halda stjórnarsamstarfinu áfram ef Icesave samningarnir verða felldir. Ef meirihluti þjóðarinnar fellir samningana, er eðlilegt að hún fái þing og ríkisstjórn sem hún telur að geti leyst úr þeim gríðarlegu úrlausnarefnum sem þjóðin á við að glíma. Má þá einu skipta hvort það er forsetastjórn eða ný stjórn sem byggir á meirihluta á nýkjörnu þingi. Við þær aðstæður er eðlilegt að þjóðin fái yfir sig stjórn sem hún á skilið, sem að öllum líkindum yrði stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks miðað við kannanir, nema eitthvað nýtt afl kæmi fram í kosningum og slægi harmleiknum upp í algeran farsa.

Af  Icesave samningum felldum liggur beinast við að forsetinn og þeir flokkar sem hafa mest haft sig í frammi um að fella þá, fai að spreyta sig á að koma Icesave málum í höfn fyrir dómstólum og taka til í rjúkandi rústum efnahagslífsins; rústum sem hvort eð er eru þeirra. Þá hlýtur réttlætinu að vera fullnægt.

Garðar Hólm

Tuesday, March 22, 2011

Lýðræðislegt ósamráð

Það vekur athygli að hvert flokksfélag Vinstri grænna á fætur öðru í Suðurkjördæmi, kjördæmi Atla Gíslasonar, krefst þess að hann segi af sér þingmennsku og hleypi varamanni að. Í ályktunum flokksfélaganna er Atli gagnrýndur fyrir að hafa ekkert samráð við félaga sína í kjördæminu áður en hann tók þá ákvörðun að segja sig úr þingflokki Vinstri grænna.

Ein af ástæðum þess að Atli sagði skilið við þingflokkinn var að hann vildi bæta stjórnmálamenninguna í landinu, sem ekki hefði breyst frá því fyrir hrun, þrátt fyrir ábendingar rannsóknarnefndar Alþingis. Bæði Atli og Lilja gagnrýndu svo kallað foringjaræði innan Vinstri grænna. En foringi Vinstri grænna í Suðurkjördæmi sá sem sagt enga ástæðu til að hafa samráð við lægri setta félaga sína í kjördæminu og sagði þingflokknum stríð á hendur með Lilju án þess að bera málið upp við stofnanir flokksins í sínu kjördæmi.

Getur tvískinnungurinn verið meiri? Er málið ekki einfaldlega það að Atli og Lilja eru að leiða uppreisn gegn forystu flokksins í þeirri von að fleiri fylgi á eftir og ríkisstjórnin falli til að koma í veg fyrir að viðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram.

Það er einkennilegt að mál sem voru í stjórnarsáttmála skuli vera aðalástæða þess að þau Lilja og Atli segi skilið við þingflokkinn. Það var í stjórnarsáttmála að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það var í stjórnarsáttmála að vinna eftir efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en kalla fram breytingar á áætluninni, sem tókst.

Allt þvaður um aðlögunarviðræður við ESB er út í hött. Að sjálfsögðu krefst viðsemjandi Íslendinga þess að Íslendingar sýni áætlanir um hvernig þjóðin hyggist leiða löggjöf og regluverk ESB í gildi, verði aðildin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Forysta ESB veit að ekkert verður að aðild Íslands fyrr en að lokinni samþykkt þjóðarinnar. Atli, Lilja, Ásmundur Einar Daðason og fleiri innan VG hafa hins vegar kosið að ganga í lið með Davíð Oddssyni, Styrmi Gunnarssyni, Kjartani Gunnarssyni og fleiri últra íhaldsmönnum í þeirri herferð að kasta ryki í augu almennings með þvaðri um aðlögunarviðræður.

Öll eiga þau það sameiginlegt að óttast að þjóðin segi já í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu vegna þess að þau vita að miklar líkur eru á að hagstæður samningur náist. Hagstæður fyrir almenning í landinu hvað varðar vöruverð, vexti og almenna viðskiptahætti. En óhagstæður kannski fyrir 50 til 60 einstaklinga sem eiga fiskinn í sjónum við Ísland og þann hóp sem þrífst á styrkjakerfinu í landbúnaðinum, sem starfar eftir 19. aldar kerfi og er varinn af himinháum verndarmúrum til að koma í veg fyrir að Íslendingar fái að borða franska osta, danska kjúklinga og svo framvegis.

Atli og Lilja brostu breitt á blaðamannafundi í gær þegar þau mærðu stefnuskrá Vinstri grænna sem þau sögðust fylgja í hvívetna. Það þýðir að allir hinir Þingmenn flokksins gera það ekki. Æðstu stofnanir flokksins hafa hins vegar margsinnis lýst yfir stuðningi við stjórnarsamstarfið og stjórnarsáttmálann. En það kemur þeim ekki við. Þau ein eru handhafar sannleikans.

Garðar Hólm

Monday, March 21, 2011

Tveggja manna lýðræði

Það er sérkennilegt að hlusta á Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur tala um ólýðræðisleg vinnubrögð og að vaðið hafi verið yfir þau í þingflokki Vinstri grænna og innan stjórnarsamstarfsins. Þegar þau og fleiri í þingflokkum stjórnarflokkanna fannst harkalega gengið fram í niðurskurði í velferðarmálum, var sá niðurskurður lækkaður um rúman milljarð.

Felst lýðræðið í huga þessa fólks að þau og etv. hin tvö til fjögur í órólegu deildinni, ráði öllu á þinginu og í stjórnarsamstarfinu. Væri það ekki að snúa lýðræðinu á haus? Það er líka spurning hvaða áhrif þau telja sig hafa sem tveir þingmenn utan þingflokka á Alþingi. Þau munu ekki hafa rétt á fullri nefndarsetu og þar með skerðast áhrif þeirra verulega. Þau munu ekki hafa neitt að segja um fjárlög og svo framvegis.

Það eina sem hugsanlega gæti falið þessu fólki meiri áhrif væri ef þau gengu í einhvern hinna þingflokkanna, t.d. Hreyfingarinnar, sem þá yxi úr þriggja manna þingflokki í fimm. En mest yrðu áhrif þeirra ef þau verða til þess með liðsinni fleiri úr órólegu deildinni, að hrekja fyrstu hreinu vinstjórn Íslandssögunnar frá. Þá má segja að þau hefðu haft verulega mikil áhrif.

Það er líka eina skiljanlega markmiðið með háttarlagi þeirra. Það er öllu fórnandi fyrir að koma í veg fyrir að samninganefnd Íslands um aðild að Evrópusambandinu komist að niðurstöðu við samningaborðið og að þjóðin fái að taka afstöðu til slíks samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau óttast að þjóðin segi já þegar hún metur hagsmuni sína að samningum gerðum.

Lýðræðisást þessara sjálfskipuðu róttæklinga er nefninlega lítils virði þegar kemur að möguleikum þjóðarinar í Evrópusambandsmálum. Þá má fórna lýðræðinu, til að standa við hlið erkiíhaldi allra flokka í skjaldborginni um sérhagsmuni 50 til 60 eigenda fiskistofnanna og 19. aldar búskaparhætti í landbúnaði.

Ljótt er þeirra lýðræði og óskiljanleg þeirra "róttækni".

Garðar Hólm

Nú hangir allt á öfgunum

Nú þegar Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason hafa formlega staðfest að þau eru ekki stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, hangir líf hennar enn meira en áður á öfgafólkinu Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni. Það er ekki hægt að reiða sig á það fólk. Þau hljóta að vera á útleið.

Þetta þýðir að núverandi ríkisstjórn getur ekki átt langt eftir. Annað hvort kemur nýr flokkur inn í ríkisstjórnina eða það verður kosið á næstunni - nema nú sé loksins komin upp staðan sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur beðið eftir og hann skipi utanþingsstjórnina. Opni skúffuna og nái í ráðherralistann sem hefur legið þar all lengi.

Hinum róttæku andspyrnumönnum í VG hefur loks tekist að verja hagsmuni LÍÚ og íhaldsbændaforystunnar. Þau hafa tryggt að nöfn þeirra afmást aldrei úr stjórnmálasögu Íslands.

Garðar Hólm

Wednesday, February 23, 2011

Byltingin á Bessastöðum og stofnun Forsetaflokksins

Ólafur Ragnar Grímsson hóf kosningabaráttu sína til endurkjörs í þættinum Silfur Egils sunnudaginn 13. febrúar síðast liðinn. Þar beinlínis bað hann Egil Helgason að spyrja sig hvort hann sæktist eftir því að sitja fimmta kjörtímabilið og þar með verða fyrsti forseti lýðveldisins til að sitja svo lengi í embætti. Þegar Egill leyfði forsetanum svo að svara eigin spurningu, fór Ólafur Ragnar að tala um hvernig óvænt atviki í lífinu, eins og veikindi, gerðu mönnum ljóst að ekki þýddi að gera langtímaáætlanir. Forsetinn svaraði því ekki eigin spurningu en útilokaði heldur ekki að hann ætlaði að bjóða sig fram á ný og tókst að koma vinsælli fyrrverandi og látinni eiginkonu sinni að í kosningabaráttunni.

Vika leið og Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir lögin um Icesave sem aukinn meirihluti, um 70 prósent þingmanna hafði samþykkt á Alþingi. Þannig tók forsetinn löggjafarvaldið af miklum meirihluta þingsins og hrifsaði þar með í raun völdin í sínar hendur.

Þótt synjunarvald forseta hafi aldrei verið notað fyrr en Ólafur Ragnar varð forseti hefur það alltaf verið almennur skilningur að ef forseti neitaði að staðfesta lög, væri hann ekki með því að taka efnislega afstöðu til málsins. Hann væri með synjun sinni að vísa málinu til þjóðarinnar. Þjóðin gæti því tekið afstöðu til máls eftir að hafa fylgst með rökræðum á Alþingi og kynnt sér málið efnislega.

Þjóðin fær ekki frið til að hugsa

En þetta dugar ekki Ólafi Ragnari Grímssyni. Hann þarf líka að hafa skoðun á málinu. Hann þarf að segja almenningi hvað felist í lögum sem Alþingi hefur fjallað um mánuðum saman og greitt um atkvæði. Í þetta skipti talaði forsetinn ekki um gjá milli þings og þjóðar því í raun skapaði hann gjá milli þings og forseta með synjun sinni. Alþingi afgreiddi málið með miklum meirihluta. Þingið greiddi líka atkvæði um annað mál, þ.e.a.s. hvort stofna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Sú tillaga féll með þriggja manna meirihluta.

Ólafur Ragnar Grímsson tók því afstöðu sem hann taldi gagnast honum persónulega best í forsetakosningum sem fram fara eftir 16 mánuði. Flestir forsetar á undan honum tilkynntu það í áramótaávarpi sínu í Ríkissjónvarpinu þegar kosningaár var að renna upp, hvort þau hyggðust leita eftir endurkjöri eða ekki. Ólafur Ragnar hefur ekki gert þetta hingað til. Hann hefur látið þetta detta út úr sér nokkrum vikum fyrir kjördag í júní, þannig að mögulegir mótframbjóðendur hans hafi sem stystan tíma til að undirbúa framboð.

Þegar Ólafur Ragnar bauð sig fram fyrst, þá nýhættur sem formaður Alþýðubandalagsins, lýsti hann því hvernig stjórnarkreppa gæti leitt til þess að forseti Íslands kæmist til svipaðra pólitískra áhrifa og forseti Frakklands. Stjórnmálafræðiprófessorinn fyrrverandi benti á að stjórnarskrár landanna væru svipaðar hvað varðaði vald forseta. Ef flokkur andsnúinn Frakklandsforseta væri með meirihluta á franska þinginu, væri franski forsetinn í raun áhrifalítill og hefði svipuð völd og forseti Íslands. Hann yrði að skipa forsætisráðherra sem meirihluti þingsins segði honum að skipa og svo framvegis.

Vegur forseta til meiri valda

En svo hélt Ólafur Ragnar áfram að lýsa því hvernig forseti Íslands gæti orðið valdamesti maður landsins. Hann sagði að ef upp kæmi stjórnarkreppa í landinu og enginn flokkur eða flokkar gætu myndað meirihluta á Alþingi gæti forseti Íslands skipað utanþingsstjórn. Svo mætti ímynda sér að utanþingsstjórnin gripi til vinsælla aðgerða sem féllu í góðan jarðveg hjá kjósendum. Þegar drægi að kosningum myndu þeir sem forsetinn hefði skipað í ráðherrastóla stofna "Forsetaflokkinn" og bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi kosningum í nafni hans.. Ef Forsetaflokkurinn ynni síðan stórsigur í kosningunum og annað hvort myndaði hreina meirihlutastjórn eða yrði ráðandi flokkur í samsteypustjórn væri kominn upp ný staða í íslenskum stjórnmálum.

Og Ólafur Ragnar spurði: Hver fer fyrir þeirri stjórn? Forsætisráðherrann eða forsetinn? Það er auðvitað forsetinn, svaraði Ólafur Ragnar Grímsson.

Ólafur Ragnar hefur alla tíð verið slingur pólitískur refur sem ávalt hefur spilað fyrir sig sjálfan en hvorki flokk né þjóð. Hann hefur alltaf lagt mikið upp úr því að vera sá sem gerir eitthvað í fyrsta skipti. Vera fyrstur til að gera hitt og þetta, t.d. að synja lögum undirskriftar. Fyrstur til að hafa utanríkisráðuneytið ekki með í ráðum fyrir opinberar heimsóknir forsetans til annarra landa og svo framvegis. Eða eins og hann sagði nýlega kampakátur við fjölmiðla: Forsetaembættið er ekki skúffa í utanríkisráðuneytinu.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvort Ólafur Ragnar Grímsson sé skipulega búinn að stíga fyrstu skrefin í áætlun sinni um stofnun Forsetaflokksins. Það má alveg reikna með því að í skúffu í skrifborði hans á Bessastöðum liggi listi með ráðherrum í utanþingsstjón. En það dugar ekki metnaði Ólafs Ragnars, því hann er ekki fyrstur til að skrifa slíkan lista. Það gerði Kristján Eldjárn líka og sýndi meira að segja forystumönnum stjónrmálaflokkanna þann lista. Nei, hann klæjar örugglega að verða fyrsti forsetinn sem skipar slíka stjórn..

Forsetinn ávarpar þjóðina frá útlöndum

Eitt af því sem bendir til að svo sé eru nýleg ummæli forsetans á Bloomberg fréttastöðinni. Ólafi Ragnari dugar nefnilega ekki að sitja þegjandi hjá á meðan þjóðin gerir upp við sig hvað hún ætlar að gera í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Nú hefur forsetinn lýst því yfir á Bloomberg að vafi leiki á að Íslendingum beri lagaleg skylda til að greiða Icesave skuldbindingarnar. Hann sagði ekkert um heiður þjóðar sem gert hefði í þriðja sinn samning við tvær erlendar vinaþjóðir. Enda varðar hann ekkert um heiður annarra en sjálfs síns og þá helst í sögubókum.

Það er líka mjög dæmigert að yfirlýsing eins og þessi birtist í útlendum fjölmiðli. Í fyrsta lagi vill forsetinn að heimurinn allur sé hans svið. Ísland nægir ekki Ólafi Ragnari. Þegar Egill Helgason spurði hann á dögunum hvers vegna hann væri svona viðtals- og yfirlýsingaglaður í erlendum fjölmiðlum en um leið erfiður til viðtals við íslenska fjölmiðla sagði Ólafur Ragnar: Jú, sjáðu til Egill minn, heimurinn er orðinn þannig með nettengingum og gervihnattasjónvarpi að þegar forseti Íslands lætur heimsbyggðina njóta ásýndar sinnar, er hann í raun alltaf að ávarpa íslensku þjóðina.

En í raun er Ólafur Ragnar eins og svo margir aðrir byltingarleiðtogar á undan honum, að ávarpa þjóð sína frá útlöndum. Útlægur með skoðanir sínar í heimalandinu. Eða hvað?

Forsetinn vill stjórnarkreppu

Forsetinn vill að þjóðin felli Icesave lögin vegna þess að þá aukast líkurnar á að stjórnarkreppa verði í landinu. Það voru Ólafi Ragnari nefnilega mikil vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi ekki segja af sér hinn 5. janúar 2010 þegar hann hafnaði fyrri Icesavelögunum. Þá hefði hann getað myndað utanþingsstjórn á þeim forsendum að það væri svo nýbúið að kjósa að það væri ekki leggjandi á þjóð í kreppu að kjósa á ný. En nú bíður hann og vonar að þjóðin bregðist honum ekki í leikfléttunni og að í framhaldinu komi Jóhanna Sigurðardóttir sneipt til Bessastaða og segi af sér. Forsetinn veit að þá verður ekki hægt að mynda annan starfhæfan meirihluta á Alþingi og ekki tekur því að leggja það á þjóðina að kjósa enn eina ferðina, enda svo stutt eftir af kjörtímabilinu.

Þá kynnu margir að spyrja, en rýfur þá ekki forsætisráðherra þing og boðar til kosninga? Nei, það er ekki svo einfalt vegna þess að þótt það hafi farið framhjá mörgum, þá hrifsaði Ólafur Ragnar alfarið til sín þingrofsvaldið í janúar 2009. Þá lýsti Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra því yfir á síðustu klukkustundum ríkisstjórnar sinnar í beinni útsendingu fyrir framan heimili sitt, að hann hefði ekki afsalað sér þingrofsvaldinu.  En Ólafur Ragnar var fljótur til svara og sagði forsætisráðherrann ekki hafa þingrofsvald. Forsætisráðherrann gæti lagt til við forseta að þing yrði rofið en forsetinn gæti einfaldlega stungið þeirri tillögu ofan í skúffu og látið eins og hann hefði aldrei heyrt hana. Og hafi Geir H. Haarde óskað eftir þingrofi daginn eftir yfirlýsingu sína, er öllum augljóst hvað Ólafur Ragnar hefur gert við þá ósk.

Þjóðin þarf sterkan leiðtoga sem nýtur trausts

Og hvernig ætlar Ólafur Ragnar að fóðara þá ákvörðu sína að skipa utanþingsstjórn? Jú, hann stelur einfaldlega röksemdafærslunni frá ríkisstjórninni sem þá er að hrökklast frá. Þjóðin megi ekki við pólitískri kreppu ofan í efnahagskreppuna og Alþingi hafi sýnt að það sé ófært um að leysa stór mál eins og Icesave. Þjóðin hafi tekið völdin af þinginu með ákvörðun sinni og ekki bara það, hann getur eins og áður vísað til skoðanakannanna. Einungis 12 prósent þjóðarinnar beri traust til þingsins, miklu fleiri beri traust til hans og mikið fylgi sé við það í könnunum að skipa frekar sérfræðinga utan þings í ráðherrastólana en misvitra þingmenn. Bingó, Forsetaflokkurinn er svo gott sem fæddur. Ólafur Ragnar þá orðinn hinn sterki leiðtogi sem þjóðin þarf á að halda, sem eru ein megin rök allra byltingarleiðtoga.

Persónulegur metnaður Ólafs Ragnars er óendanlegur. Hann getur einfaldlega ekki látið þess ófreistað að verða fyrsti forsetinn til að skipa utanþingsstjórn. Með því hefði hann hrifsað til sín svo mikil völd og ómerkt svo margar hefðir við framkvæmd stjórnarskrárinnar að upp úr öllu væri risið algerlega nýtt forsetaembætti. Nýtt lýðveldi. Hið nýja Íslands sem lýðurinn hefur kallað eftir. Hann hefði þá einn síns liðs breytt stjórnarskrá Íslands, eitthvað sem öllum þingflokkum lýðveldisins hafði ekki tekist frá stofnun þess.

Þeir sem sjá þetta og finnst samsærið á Bessastöðum ógeðfellt verða að setja forsetanum stólinn fyrir dyrnar og byrja að takast á við þann forseta sem Ólafur Ragnar er í raun og veru og hætta samtali við þann forseta sem hann sýnist vera samkvæmt hefðum síðust 60 ára eða svo.

Það eru ekki bara byltingar í Miðausturlöndum þessa dagana. Það er einnig bylting í framkvæmd á Íslandi og henni er stjórnað af einum manni frá forsetasetrinu á Bessastöðum. Klappstýra útrásarinnar númer eitt ætlar að eigna sér hina höfuðlausu Búsáhaldabyltingu, verða leiðtogi hennar og um leið valdamesti maður í sögu Íslands, með Morgunblaðið og ritstjóra þess sem málgagn Forsetaflokksins.

Garðar Hólm