Sunday, December 5, 2010

Grátlegur misskilningur róttækra vinstrimanna

Það er þyngra en tárum tekur að fylgjast með niðurlægingu þjóðernissósíalista í Vinstri hreyfingunni grænu framboði sem vilja teljast til róttækrar vinstristefnu í evrópumálum. Það er sorglegt að horfa á þennan hóp standa með ofuríhaldinu í liði af fullkomlega blindri og misskilinni þjóðernishyggju. Gleymd er öll stéttarvitund og marxísk fræði sem þessir svo kölluðu róttæklingar þykjast þó hafa að leiðarljósi.

Þegar alræðinu var kastað á öskuhauga sögunnar í Sovétinu virðist sem margir vinstrimenn hafi af skömm kastað frá sér öllu því sem sagan hefur kennt og marxísk sögugreining býður. Heimurinn hefur öldum saman verið á leið til meiri hnattvæðingar og sú leið verður ekki stöðvuð, hvað sem líður rómantískum þönkum þjóðernissinna hægra og vinstramegin í stjórnmálunum. Síðasta efnahagshrun ætti að sýna öllum sem enn höfðu ekki séð hversu alþjóðavæddur kapitalisminn er,  hversu gífurlegum skaða hann getur valdið hinum vinnandi stéttum. Þótt þjóðríkjum hafi fjölgað, hefur þjóðaeiningum og bandalögum fækkað og það er af hinu góða. Í því felst vörn fyrir smáar þjóðir.

Eina svar vinnandi fólks, almennings, er að sameinast með sama hætti og kapitalistarnir og standa saman gegn óhófi og arðráni hinna fáu og ofurríku. Alþjóðleg verkalýðsbarátta, alþjóðleg mannréttindabarátta og alþjóðleg lýðræðisbarátta er eina svarið gegn leyndarhyggju fjármagnsins sem yfirleitt reynir að komast fram hjá lögum, eltir ódýrt vinnuafl, þolir ekki vinnulöggjöf og réttindi vinnandi fólks og svo framvegis.

Meira að segja fyrrverandi efnahagsráðgjafi Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta, og einn höfunda skattalækkunarstefnu hans, hefur séð í hvers konar ógöngur nýfrjálshyggjan er komin. Í hans tíð áttu 5 % ríkustu Bandaríkjamanna um 20 billjarða dollara, en í dag, eftir hrun, á þessi sami hópur 40 billjarða dollara. Hrunið var ekkert annað en enn eitt rán þessa hóps sem almenningi er svo ætlað að borga. Rán sem framið er með hlutafjárbraski, uppbroti fyrirtækja og krosssölu á þeim til að búa til ímyndað fjármagn. Sundraður almenningur með landamæri ríkja sem veggi í kringum um sig, má sín lítils í mótstöðunni gegn þessu liði. Eina svarið er samstaða og samvinna.

Bóndinn á heiðinni

Evrópusambandið er ekki endanlegt svar við öllum vanda. En bandalagið byggir á samkomulagi aðildarríkjanna um að standa vörð um frið, lýðræðið og samræmingu reglna á grunnsviðum samfélagsins, hvað varðar réttindi launafólks, hvað varðar umhverfismál, vöruvernd og svo framvegis.

Það er nánast ömurlegt að lesa eftirfarandi texta hafðan eftir yngsta þingmanni Vinstri grænna og bónda að norðan á MBL þegar hann tiltekur gallana við Evrópusambandið:
Hann tekur sem dæmi, máli sínu til stuðnings, að ESB geri þá kröfu að íslensk stjórnvöld setji upp greiðslustofnun í landbúnaði. Sú stofnun hafi umsjón með öllu styrkjakerfinu eins og það sé uppbyggt í Evrópusambandinu. Það sé hins vegar byggt upp með öðrum hætti en hér á landi.  (mbl. 20. nóv 2010).

Þingmanninum unga og bóndanum finnst s.s. miklu betra að Bændasamtökin íslensku fái að halda áfram að deila út skattfé almennings eins og samtökunum sýnist. Því stærsti hluti stjórnsýslunnar í landbúnaði er í höndum Bændasamtakanna. Landbúnaðarráðuneytið er nánast eins og útibú frá þessum samtökum og því ekki skrýtið að þeir sem fara þar með völdin vilji halda þeim.

Það sem þingmaðurinn “róttæki” og bóndinn óttast er að farið verði að kröfum Evrópusambandsins að öll styrkjamál í landbúnaði verði færð í opinbera stofnun sem HEYRI UNDIR LANDBÚNAÐARRÁÐUNEYTIÐ. Völdin verði s.s. tekin af Bændasamtökunum. Þessi “róttæki” þingmaður hefur engan áhuga á lægra matvöruverði til almennings, enda er almenningur ekki umbjóðendur hans, heldur þröng klíka bænda sem vill fá að skammta sér skattfé eftir eigin höfði og fá að ráða verðlagi á landbúnaðarvörum án afskipta frjálsra viðskipta almennings.

Í huga hins róttæka þingmanns er það þjóðinni hættulegt að almenningur fái að velja á milli danskra kjúklinga og íslenskra, franskra osta og íslenskra. Þá gleymir hann því alveg að þegar tollamúrar voru lækkaðir eða afnumdir á grænmeti, BATNAÐI hagur íslenskra grænmetisbænda, sem vegna samkeppni fóru í vöruþróun og hafa sjaldan haft það betra.

Þjóðernissósíalistar og aðrir andstæðingar evrópusambandsaðildar benda stundum á að þegar Finnar gerðust aðilar að bandalaginu hafi 8.000 bændur þurft að bregða búi. Þetta er rétt en algjör meirihluti þeirra bænda voru með 10 til 12 gripi á búum sínum, eða algerir hobbíbændur sem fyrir inngöngu fengu styrki frá finnska ríkinu en misstu þá við aðildina. Evrópusambandið gerir nefnilega þá kröfu að þeir sem fást við búskap séu að því í alvöru. Sambandið telur ekki eðlilegt að það teljist atvinnugrein að halda úti tólf til tuttugu rollum.
Ásmundur Einar Daðason, yngsti þingmaður vinstri róttæka flokksins á Íslandi er óþægilega líkur bóndanum í Sumarhúsum, sem í sjálfstæðisrembingi sínum og forheimsku missti að lokum allt sem hann elskaði. Það eru ömurleg örlög ungs “róttæklings.”

Í bandalagi við sérhagsmunina

Það er einkennilegt að félagar í flokki sem kennir sig við vinstri róttækni vilji stilla sér upp með bændaíhaldi og þeim stóreignamönnum sem hafa hagsmuna að gæta með því að komið verði í veg fyrir samkeppni í eignarhaldi á íslenskum útgerðum. Fimmtíu til sjötíu einstaklingar eiga allar fiskveiðiheimildir við Ísland og vilja halda því áfram án afskipta annarra. Þeir óttast ekki að miðstjórnarvaldið í Brussel taki allar ákvarðanir um hvað megi veiða og hvað ekki á Íslandsmiðum og að skipum erlendra þjóða verði hleypt inn í fiskveiðilögsögu Íslands, vegna þess að þeir vita að það verður ekki þannig. Nei, það sem þeir óttast er að kapitalistar í evrópusambandsríkjunum geti keypt og átt að fullu íslensk útgerðarfyrirtæki. Íslenskir kapitalistar treysta sér ekki í samkeppni við aðra kapitalista, þótt þeir sjálfir eigi 100% í sjávarútvegsfyrirtækjum í ríkjum Evrópusambandsins og jafnvel stóran hluta af fiskveiðiheimildum sambandsins.

Róttækir vinstrimenn í Vinstri grænum vilja sem sagt verja þessa hagsmuni í nafni þjóðernishyggju, að ekki megi beygja sig undir yfirþjóðlegt vald, ekki megi taka upp löggjöf í mannréttindamálum og fleiri sviðum, sem yfirleitt er miklu róttækari en íslensk löggjöf, t.d. hvað varðar sjálfstæði dómstóla og almenna virðingu fyrir réttarríkinu.

Í alþjóðlegum samskiptum afsala þjóðir sér alltaf einhverju af valdi sínu. Með því að gangast undir samræmdar reglur og mannasiði, afsala einstakar þjóðir sér réttinum til að haga þeim málum af eigin geðþótta. Það þýðir t.d. ekkert fyrir aðildarríki í Evrópusambandinu að ætla sér að taka upp dauðarefsingar, það er ekki viðurkennt innan ESB að brjóta megi rétt á samkynhneigðum, það er ekki löglegt að brjóta almenna vinnulöggjöf á þegnum sambandsins, það er ekki leyfilegt að framleiða matvöru við sóðalegar aðstæður og vörur eru staðlaðar þannig að framleiðendur í öllum aðildarríkjunum hafi jafna stöðu í samkeppninni osfv. Hvað af þessu kemur almenningi illa?

Hagur norðurslóða

Málefni norðurslóða er eitt brýnasta mál framtíðarinnar. Það þarf að setja alþjóðleg lög um svæðið og það þarf að efla eftirlit á því. Ísland hefur enga burði til að gæta hagsmuna sinna á þessu svæði eitt og óstutt. Evrópusambandið leggur áherslu á umhverfisvernd þegar kemur að norðurslóðum. Með aðild að sambandinu fengi Ísland mikilvægan stuðning frá því til eftirlits og til að berjast fyrir því að þjóðir eins og Bandaríkin og Rússland sættist á samræmd alþjóðleg lög um norðurslóðir. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir íslensku þjóðina.

Þegar horft er til hagsmuna almennings, hinna vinnandi stétta á Íslandi er kristaltært að engin ein aðgerð er henni meira í hag en aðild að Evrópusambandinu. Þetta er augljóst öllum sem nenna að kynna sér eðli og uppbyggingu Evrópusambandsins. Sú grýla sem máluð er á vegginn af fámennum sérhagsmunahópum í landbúnaði og sjávarútvegi á sér enga stoð í raunveruleikanum. Hún er moðreykur, ryk sem viljandi er kastað í augu vinnandi fólks til að villa því sýn, til að hræða það með þjóðlögum til fylgislags við hagsmuni sem í raun eru þeim algerlega andstæðir. Það eru grátleg örlög róttækra vinstrimanna að standa með fámennum hagsmunahópum auðvaldsins gegn hagsmunum almennings. Sagan á eftir að dæma slíka vinstrimenn hart.

Staða tungumálsins eflist

Íslendingar munu halda áfram að borða hrútspunga, syngja ættjarðarlög, fara á þjóðhátíð í Eyjum, lesa Laxness, kveða rímur, elska Þingvelli, Ásbyrgi, Jón Sigurðsson og hálendið eftir aðild að Evrópusambandinu. Í sambandinu njóta öll tungumál jafnræðis. Það má færa fyrir því rök að ekkert myndi styrkja íslenska tungu eins mikið og aðild að Evrópusambandinu. Öll skjöl sambandsins yrðu þýdd á íslensku, en í dag eru þessi skjöl ekki þýdd þótt Íslendingar séu aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og hafi í raun innleitt um 70 prósent af allri löggjöf sambandsins.

Með aðild sætu Íslendingar til borðs með öðrum ráðamönnum í Evrópusambandinu í leiðtogaráðinu og hefðu sömu áhrif á gang mála og leiðtogar annarra ríkja. Þeir ættu þingmenn á Evrópuþinginu og fulltrúa í framkvæmdastjórn sambandsins. Á öllum þessum stöðum gætu íslenskir fulltrúar talað íslensku og túlkar myndu túlka mál þeirra samstundis yfir á önnur Evrópumál. Nú túlkar enginn íslensku hjá sambandinu, þannig að málhaltir íslenskir stjórnmála- og embættismenn á erlendum tungum, eru ill skiljanlegir á fundum með fulltrúum ESB.

Á annað hundrað Íslendingar sem kunna önnur tungumál fengju vinnu við að túlka og þýða. Aðgangur Íslendinga að evrópskum skólum, menningarstofnunum, vísindastofnunum og vinnumarkaði myndi styrkjast til muna. Hvernig getur þetta skaðað íslenska hagsmuni? Hvernig getur þetta skaðað hinar vinnandi stéttir á Íslandi? Hvernig geta róttækir alþjóðasinnaðir vinstrimenn haldið því fram að aðild að sambandinu muni svipta Íslendinga sjálfstæðinu og ræna almenning í landinu lífshamingjunni? Hvernig getur vinstrimaður sem samkvæmt skilgreiningu ætti að líta til róttækra félagsvísinda í greiningum sínum fengið það út að 2 + 2 sé 1?

Sögulegur misskilningur

Sem betur fer er fólk innan Vinstri grænna og í hópi kjósenda þeirra sem gerir sér grein fyrir þessu. Þessi hluti hreyfingarinnar verður að beita sér og koma félögum sínum í skilning um að þjóðernisandstaða þeirra sé byggð á meiriháttar sögulegum og fræðilegum misskilningi. Landbúnaður hefur ekki lagst af í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þvert á móti er stundaður öflugur landbúnaður í öllum aðildarríkjunum. Hann hefur hins vegar þurft að þróast og aðlaga sig að samræmdum reglum, til að gæta hreinlætis, hollustu, umhverfis og samkeppnisstöðu. Það getur ekki talist hættulegt. Það getur heldur ekki talist hættulegt að Spánverji eða Þjóðverji eigi íslenskt útgerðarfyrirtæki, frekar en að Íslendingar eigi stórarn hluta aflaheimilda í Evrópusambandsríkjunum og fjölda fyrirtækja í sjávarútvegi þar. Það sem mestu skiptir er að yfirráð Íslenska ríkisins yfir 200 mílna auðlindarlögsögunni og öðrum auðlindum landsins sé viðurkennd. Að íslenskur fiskur sé unninn á Íslandi, fiskveiðar lúti umhverfisverndarsjónarmiðum og fiskur af Íslandsmiðum teljist umhverfisvæn og holl vara í fremsta gæðaflokki.

Um 60 til 70 prósent af öllum útflutningi Íslendinga fer til Evrópusambandsins. Vegna þess að Íslendingar vildu ekki fulla aðild og gerðust þess í stað aðilar að EES og vildu halda fiski og landbúnaði fyrir utan samninga, er lagður tollur á fullunnar fiskafurðir frá Íslandi inn í sambandið. Þess vegna vinna þúsundir íbúa Evrópu við það að fullvinna íslenskra fiskafurðir. Með aðild að sambandinu yrðu þessir tollar lagðir niður og engin ástæða væri til að fullvinna þessar vörur ekki á Íslandi. Með því gætu þúsundir starfa flust til landsins. Fleiri störf en eru í öllum álverum landsins og útflutningstekjur af fiskafurðum myndu margfaldast.  Hvernig getur það komið niður á hag hinna vinnandi stétta á Íslandi? Hvernig vinnur það gegn hagsmunum almennings á Íslandi?

Eftir að gömlu austantjaldslöndin sem nú eru aðilar að sambandinu tóku upp reglur ESB í framleiðslu landbúnaðarvara, hefur útflutningur þeirra til evrópusambandsríkjanna á landbúnaðarvörum margfaldast. Íslenskur landbúnaður er hátæknivæddur og nútímalegur. Hann þarf því ekki að aðlaga sig að reglum sambandsins í sama mæli og landbúnaður í gömlu austur Evrópu. Það lúta öll rök að því að útflutningur á íslenskum landbúnaðarafurðum muni margfaldast þegar tollmúrar hverfa. Hér eru unnar hágæðavörur sem eiga full erindi á evrópumarkað og það er engin ástæða til annars en ætla að þær geti náð þar vinsældum. Hagur bænda getur því batnað ef bændur kæra sig um og vilja aðlaga sig að nýjum 500 milljón manna markaði sem stæði þeim opinn á jafnréttisgrundvelli. Hvernig getur það skaðað hag íslensks almennings?

Ónýtur gjaldmiðill

Gjaldmiðill þjóðarinnar er ónýtur. Það vita það allir. Hins vegar hefur fámennur hópur auðmanna hag af því að halda í krónuna. Þeir segja að krónan hafi í för með sér jákvæðan sveigjanleika. Undanfarin 70 ár hefur það þýtt á mannamáli að þeir geti aukið verðmæti útflutnings síns með því að gengi krónunnar sé fellt og almenningur látinn borga brúasann með hækkun verðlags og verðtryggðra lána.

Við samningaborðið ættu Íslendingar að fara fram á að strax við aðild verði fundið viðunandi verðlag á krónunni og hún fasttengd evrunni þar til við höfum uppfyllt skilyrði Evrópusambandsins fyrir upptöku evrunnar. Með þessu kæmust vextir á slóðir siðaðra þjóða, hinar vinnandi stéttir gætu gert raunhæfar áætlanir um fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og í öðrum fjárfestingum og stöðugleiki kæmist á efnahagsmálin með skjóli af Seðlabanka Evrópu. Hvernig getur það skaðað hagsmuni almennings, hinna vinnandi stétta í landinu?

Ættjarðarást en ekki þjóðremba

Hvar í flokki sem Íslendingar standa verða þeir að leggja gamaldags þjóðernisstefnu og rembu á hilluna og horfa fyrst og fremst á hagsmuni heildarinnar í landinu þegar ákveðið er hvort Íslendingar gerist aðilar að Evrópusambandinu. Það þýðir ekki að íbúar landsins verði að láta af  ættjarðarást sinni og virðingu fyrir öllu því góða sem íslensk menning og saga hefur að geyma. Þvert á móti.

Íslendingar hafa vegna sögu sinnar, menningar og reynslu af því að halda uppi samfélagi hér norður í hafi í rúm 1.100 ár mikið fram að færa við sameiginlegt borð Evrópuþjóða. Þar þurfa þeir ekki að skammast sín. Við eigum vísindamenn á heimsmælikvarða á mörgum sviðum, svo sem eins og í nýtingu umhverfisvænnar orku. Menning okkar og saga er ekkert síðri en menning og saga hinna 27 frjálsu og sjálfstæðu þjóðanna sem mynda Evrópusambandið.

Innan Evrópusambandsins myndu Íslendingar án vafa skipa sér til borðs með öðrum norrænum þjóðum sem eiga með sér sterk vináttu- og bræðrabönd. Innganga Íslands myndi styrkja norrænar áherslur innan Evrópusambandsins og þar með styrkja sambandið og þjóðirnar sjálfar.

Við eigum ekki að ala á ótta og fordómum við Evrópusambandið. Hagur þjóðarinnar hefur alltaf verið best tryggður þegar Ísland hefur án minnimáttarkenndar og af fullri reisn sest til borðs með fulltrúum annarra þjóða,  látið rödd sína heyrast og tekið þátt í ákvörðunartökuferlinu. Með því að einangra sig í misskilinni þjóðernishyggju er verið að kreppa að hag almennings, hinna vinnandi stétta í landinu og það klæðir róttæka vinstrimenn alveg sérstaklega illa að beita sér fyrir því.

Garðar Hólm

No comments:

Post a Comment