Wednesday, February 23, 2011

Byltingin á Bessastöðum og stofnun Forsetaflokksins

Ólafur Ragnar Grímsson hóf kosningabaráttu sína til endurkjörs í þættinum Silfur Egils sunnudaginn 13. febrúar síðast liðinn. Þar beinlínis bað hann Egil Helgason að spyrja sig hvort hann sæktist eftir því að sitja fimmta kjörtímabilið og þar með verða fyrsti forseti lýðveldisins til að sitja svo lengi í embætti. Þegar Egill leyfði forsetanum svo að svara eigin spurningu, fór Ólafur Ragnar að tala um hvernig óvænt atviki í lífinu, eins og veikindi, gerðu mönnum ljóst að ekki þýddi að gera langtímaáætlanir. Forsetinn svaraði því ekki eigin spurningu en útilokaði heldur ekki að hann ætlaði að bjóða sig fram á ný og tókst að koma vinsælli fyrrverandi og látinni eiginkonu sinni að í kosningabaráttunni.

Vika leið og Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir lögin um Icesave sem aukinn meirihluti, um 70 prósent þingmanna hafði samþykkt á Alþingi. Þannig tók forsetinn löggjafarvaldið af miklum meirihluta þingsins og hrifsaði þar með í raun völdin í sínar hendur.

Þótt synjunarvald forseta hafi aldrei verið notað fyrr en Ólafur Ragnar varð forseti hefur það alltaf verið almennur skilningur að ef forseti neitaði að staðfesta lög, væri hann ekki með því að taka efnislega afstöðu til málsins. Hann væri með synjun sinni að vísa málinu til þjóðarinnar. Þjóðin gæti því tekið afstöðu til máls eftir að hafa fylgst með rökræðum á Alþingi og kynnt sér málið efnislega.

Þjóðin fær ekki frið til að hugsa

En þetta dugar ekki Ólafi Ragnari Grímssyni. Hann þarf líka að hafa skoðun á málinu. Hann þarf að segja almenningi hvað felist í lögum sem Alþingi hefur fjallað um mánuðum saman og greitt um atkvæði. Í þetta skipti talaði forsetinn ekki um gjá milli þings og þjóðar því í raun skapaði hann gjá milli þings og forseta með synjun sinni. Alþingi afgreiddi málið með miklum meirihluta. Þingið greiddi líka atkvæði um annað mál, þ.e.a.s. hvort stofna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Sú tillaga féll með þriggja manna meirihluta.

Ólafur Ragnar Grímsson tók því afstöðu sem hann taldi gagnast honum persónulega best í forsetakosningum sem fram fara eftir 16 mánuði. Flestir forsetar á undan honum tilkynntu það í áramótaávarpi sínu í Ríkissjónvarpinu þegar kosningaár var að renna upp, hvort þau hyggðust leita eftir endurkjöri eða ekki. Ólafur Ragnar hefur ekki gert þetta hingað til. Hann hefur látið þetta detta út úr sér nokkrum vikum fyrir kjördag í júní, þannig að mögulegir mótframbjóðendur hans hafi sem stystan tíma til að undirbúa framboð.

Þegar Ólafur Ragnar bauð sig fram fyrst, þá nýhættur sem formaður Alþýðubandalagsins, lýsti hann því hvernig stjórnarkreppa gæti leitt til þess að forseti Íslands kæmist til svipaðra pólitískra áhrifa og forseti Frakklands. Stjórnmálafræðiprófessorinn fyrrverandi benti á að stjórnarskrár landanna væru svipaðar hvað varðaði vald forseta. Ef flokkur andsnúinn Frakklandsforseta væri með meirihluta á franska þinginu, væri franski forsetinn í raun áhrifalítill og hefði svipuð völd og forseti Íslands. Hann yrði að skipa forsætisráðherra sem meirihluti þingsins segði honum að skipa og svo framvegis.

Vegur forseta til meiri valda

En svo hélt Ólafur Ragnar áfram að lýsa því hvernig forseti Íslands gæti orðið valdamesti maður landsins. Hann sagði að ef upp kæmi stjórnarkreppa í landinu og enginn flokkur eða flokkar gætu myndað meirihluta á Alþingi gæti forseti Íslands skipað utanþingsstjórn. Svo mætti ímynda sér að utanþingsstjórnin gripi til vinsælla aðgerða sem féllu í góðan jarðveg hjá kjósendum. Þegar drægi að kosningum myndu þeir sem forsetinn hefði skipað í ráðherrastóla stofna "Forsetaflokkinn" og bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi kosningum í nafni hans.. Ef Forsetaflokkurinn ynni síðan stórsigur í kosningunum og annað hvort myndaði hreina meirihlutastjórn eða yrði ráðandi flokkur í samsteypustjórn væri kominn upp ný staða í íslenskum stjórnmálum.

Og Ólafur Ragnar spurði: Hver fer fyrir þeirri stjórn? Forsætisráðherrann eða forsetinn? Það er auðvitað forsetinn, svaraði Ólafur Ragnar Grímsson.

Ólafur Ragnar hefur alla tíð verið slingur pólitískur refur sem ávalt hefur spilað fyrir sig sjálfan en hvorki flokk né þjóð. Hann hefur alltaf lagt mikið upp úr því að vera sá sem gerir eitthvað í fyrsta skipti. Vera fyrstur til að gera hitt og þetta, t.d. að synja lögum undirskriftar. Fyrstur til að hafa utanríkisráðuneytið ekki með í ráðum fyrir opinberar heimsóknir forsetans til annarra landa og svo framvegis. Eða eins og hann sagði nýlega kampakátur við fjölmiðla: Forsetaembættið er ekki skúffa í utanríkisráðuneytinu.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvort Ólafur Ragnar Grímsson sé skipulega búinn að stíga fyrstu skrefin í áætlun sinni um stofnun Forsetaflokksins. Það má alveg reikna með því að í skúffu í skrifborði hans á Bessastöðum liggi listi með ráðherrum í utanþingsstjón. En það dugar ekki metnaði Ólafs Ragnars, því hann er ekki fyrstur til að skrifa slíkan lista. Það gerði Kristján Eldjárn líka og sýndi meira að segja forystumönnum stjónrmálaflokkanna þann lista. Nei, hann klæjar örugglega að verða fyrsti forsetinn sem skipar slíka stjórn..

Forsetinn ávarpar þjóðina frá útlöndum

Eitt af því sem bendir til að svo sé eru nýleg ummæli forsetans á Bloomberg fréttastöðinni. Ólafi Ragnari dugar nefnilega ekki að sitja þegjandi hjá á meðan þjóðin gerir upp við sig hvað hún ætlar að gera í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Nú hefur forsetinn lýst því yfir á Bloomberg að vafi leiki á að Íslendingum beri lagaleg skylda til að greiða Icesave skuldbindingarnar. Hann sagði ekkert um heiður þjóðar sem gert hefði í þriðja sinn samning við tvær erlendar vinaþjóðir. Enda varðar hann ekkert um heiður annarra en sjálfs síns og þá helst í sögubókum.

Það er líka mjög dæmigert að yfirlýsing eins og þessi birtist í útlendum fjölmiðli. Í fyrsta lagi vill forsetinn að heimurinn allur sé hans svið. Ísland nægir ekki Ólafi Ragnari. Þegar Egill Helgason spurði hann á dögunum hvers vegna hann væri svona viðtals- og yfirlýsingaglaður í erlendum fjölmiðlum en um leið erfiður til viðtals við íslenska fjölmiðla sagði Ólafur Ragnar: Jú, sjáðu til Egill minn, heimurinn er orðinn þannig með nettengingum og gervihnattasjónvarpi að þegar forseti Íslands lætur heimsbyggðina njóta ásýndar sinnar, er hann í raun alltaf að ávarpa íslensku þjóðina.

En í raun er Ólafur Ragnar eins og svo margir aðrir byltingarleiðtogar á undan honum, að ávarpa þjóð sína frá útlöndum. Útlægur með skoðanir sínar í heimalandinu. Eða hvað?

Forsetinn vill stjórnarkreppu

Forsetinn vill að þjóðin felli Icesave lögin vegna þess að þá aukast líkurnar á að stjórnarkreppa verði í landinu. Það voru Ólafi Ragnari nefnilega mikil vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi ekki segja af sér hinn 5. janúar 2010 þegar hann hafnaði fyrri Icesavelögunum. Þá hefði hann getað myndað utanþingsstjórn á þeim forsendum að það væri svo nýbúið að kjósa að það væri ekki leggjandi á þjóð í kreppu að kjósa á ný. En nú bíður hann og vonar að þjóðin bregðist honum ekki í leikfléttunni og að í framhaldinu komi Jóhanna Sigurðardóttir sneipt til Bessastaða og segi af sér. Forsetinn veit að þá verður ekki hægt að mynda annan starfhæfan meirihluta á Alþingi og ekki tekur því að leggja það á þjóðina að kjósa enn eina ferðina, enda svo stutt eftir af kjörtímabilinu.

Þá kynnu margir að spyrja, en rýfur þá ekki forsætisráðherra þing og boðar til kosninga? Nei, það er ekki svo einfalt vegna þess að þótt það hafi farið framhjá mörgum, þá hrifsaði Ólafur Ragnar alfarið til sín þingrofsvaldið í janúar 2009. Þá lýsti Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra því yfir á síðustu klukkustundum ríkisstjórnar sinnar í beinni útsendingu fyrir framan heimili sitt, að hann hefði ekki afsalað sér þingrofsvaldinu.  En Ólafur Ragnar var fljótur til svara og sagði forsætisráðherrann ekki hafa þingrofsvald. Forsætisráðherrann gæti lagt til við forseta að þing yrði rofið en forsetinn gæti einfaldlega stungið þeirri tillögu ofan í skúffu og látið eins og hann hefði aldrei heyrt hana. Og hafi Geir H. Haarde óskað eftir þingrofi daginn eftir yfirlýsingu sína, er öllum augljóst hvað Ólafur Ragnar hefur gert við þá ósk.

Þjóðin þarf sterkan leiðtoga sem nýtur trausts

Og hvernig ætlar Ólafur Ragnar að fóðara þá ákvörðu sína að skipa utanþingsstjórn? Jú, hann stelur einfaldlega röksemdafærslunni frá ríkisstjórninni sem þá er að hrökklast frá. Þjóðin megi ekki við pólitískri kreppu ofan í efnahagskreppuna og Alþingi hafi sýnt að það sé ófært um að leysa stór mál eins og Icesave. Þjóðin hafi tekið völdin af þinginu með ákvörðun sinni og ekki bara það, hann getur eins og áður vísað til skoðanakannanna. Einungis 12 prósent þjóðarinnar beri traust til þingsins, miklu fleiri beri traust til hans og mikið fylgi sé við það í könnunum að skipa frekar sérfræðinga utan þings í ráðherrastólana en misvitra þingmenn. Bingó, Forsetaflokkurinn er svo gott sem fæddur. Ólafur Ragnar þá orðinn hinn sterki leiðtogi sem þjóðin þarf á að halda, sem eru ein megin rök allra byltingarleiðtoga.

Persónulegur metnaður Ólafs Ragnars er óendanlegur. Hann getur einfaldlega ekki látið þess ófreistað að verða fyrsti forsetinn til að skipa utanþingsstjórn. Með því hefði hann hrifsað til sín svo mikil völd og ómerkt svo margar hefðir við framkvæmd stjórnarskrárinnar að upp úr öllu væri risið algerlega nýtt forsetaembætti. Nýtt lýðveldi. Hið nýja Íslands sem lýðurinn hefur kallað eftir. Hann hefði þá einn síns liðs breytt stjórnarskrá Íslands, eitthvað sem öllum þingflokkum lýðveldisins hafði ekki tekist frá stofnun þess.

Þeir sem sjá þetta og finnst samsærið á Bessastöðum ógeðfellt verða að setja forsetanum stólinn fyrir dyrnar og byrja að takast á við þann forseta sem Ólafur Ragnar er í raun og veru og hætta samtali við þann forseta sem hann sýnist vera samkvæmt hefðum síðust 60 ára eða svo.

Það eru ekki bara byltingar í Miðausturlöndum þessa dagana. Það er einnig bylting í framkvæmd á Íslandi og henni er stjórnað af einum manni frá forsetasetrinu á Bessastöðum. Klappstýra útrásarinnar númer eitt ætlar að eigna sér hina höfuðlausu Búsáhaldabyltingu, verða leiðtogi hennar og um leið valdamesti maður í sögu Íslands, með Morgunblaðið og ritstjóra þess sem málgagn Forsetaflokksins.

Garðar Hólm

No comments:

Post a Comment