Tuesday, March 22, 2011

Lýðræðislegt ósamráð

Það vekur athygli að hvert flokksfélag Vinstri grænna á fætur öðru í Suðurkjördæmi, kjördæmi Atla Gíslasonar, krefst þess að hann segi af sér þingmennsku og hleypi varamanni að. Í ályktunum flokksfélaganna er Atli gagnrýndur fyrir að hafa ekkert samráð við félaga sína í kjördæminu áður en hann tók þá ákvörðun að segja sig úr þingflokki Vinstri grænna.

Ein af ástæðum þess að Atli sagði skilið við þingflokkinn var að hann vildi bæta stjórnmálamenninguna í landinu, sem ekki hefði breyst frá því fyrir hrun, þrátt fyrir ábendingar rannsóknarnefndar Alþingis. Bæði Atli og Lilja gagnrýndu svo kallað foringjaræði innan Vinstri grænna. En foringi Vinstri grænna í Suðurkjördæmi sá sem sagt enga ástæðu til að hafa samráð við lægri setta félaga sína í kjördæminu og sagði þingflokknum stríð á hendur með Lilju án þess að bera málið upp við stofnanir flokksins í sínu kjördæmi.

Getur tvískinnungurinn verið meiri? Er málið ekki einfaldlega það að Atli og Lilja eru að leiða uppreisn gegn forystu flokksins í þeirri von að fleiri fylgi á eftir og ríkisstjórnin falli til að koma í veg fyrir að viðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram.

Það er einkennilegt að mál sem voru í stjórnarsáttmála skuli vera aðalástæða þess að þau Lilja og Atli segi skilið við þingflokkinn. Það var í stjórnarsáttmála að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það var í stjórnarsáttmála að vinna eftir efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en kalla fram breytingar á áætluninni, sem tókst.

Allt þvaður um aðlögunarviðræður við ESB er út í hött. Að sjálfsögðu krefst viðsemjandi Íslendinga þess að Íslendingar sýni áætlanir um hvernig þjóðin hyggist leiða löggjöf og regluverk ESB í gildi, verði aðildin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Forysta ESB veit að ekkert verður að aðild Íslands fyrr en að lokinni samþykkt þjóðarinnar. Atli, Lilja, Ásmundur Einar Daðason og fleiri innan VG hafa hins vegar kosið að ganga í lið með Davíð Oddssyni, Styrmi Gunnarssyni, Kjartani Gunnarssyni og fleiri últra íhaldsmönnum í þeirri herferð að kasta ryki í augu almennings með þvaðri um aðlögunarviðræður.

Öll eiga þau það sameiginlegt að óttast að þjóðin segi já í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu vegna þess að þau vita að miklar líkur eru á að hagstæður samningur náist. Hagstæður fyrir almenning í landinu hvað varðar vöruverð, vexti og almenna viðskiptahætti. En óhagstæður kannski fyrir 50 til 60 einstaklinga sem eiga fiskinn í sjónum við Ísland og þann hóp sem þrífst á styrkjakerfinu í landbúnaðinum, sem starfar eftir 19. aldar kerfi og er varinn af himinháum verndarmúrum til að koma í veg fyrir að Íslendingar fái að borða franska osta, danska kjúklinga og svo framvegis.

Atli og Lilja brostu breitt á blaðamannafundi í gær þegar þau mærðu stefnuskrá Vinstri grænna sem þau sögðust fylgja í hvívetna. Það þýðir að allir hinir Þingmenn flokksins gera það ekki. Æðstu stofnanir flokksins hafa hins vegar margsinnis lýst yfir stuðningi við stjórnarsamstarfið og stjórnarsáttmálann. En það kemur þeim ekki við. Þau ein eru handhafar sannleikans.

Garðar Hólm

Monday, March 21, 2011

Tveggja manna lýðræði

Það er sérkennilegt að hlusta á Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur tala um ólýðræðisleg vinnubrögð og að vaðið hafi verið yfir þau í þingflokki Vinstri grænna og innan stjórnarsamstarfsins. Þegar þau og fleiri í þingflokkum stjórnarflokkanna fannst harkalega gengið fram í niðurskurði í velferðarmálum, var sá niðurskurður lækkaður um rúman milljarð.

Felst lýðræðið í huga þessa fólks að þau og etv. hin tvö til fjögur í órólegu deildinni, ráði öllu á þinginu og í stjórnarsamstarfinu. Væri það ekki að snúa lýðræðinu á haus? Það er líka spurning hvaða áhrif þau telja sig hafa sem tveir þingmenn utan þingflokka á Alþingi. Þau munu ekki hafa rétt á fullri nefndarsetu og þar með skerðast áhrif þeirra verulega. Þau munu ekki hafa neitt að segja um fjárlög og svo framvegis.

Það eina sem hugsanlega gæti falið þessu fólki meiri áhrif væri ef þau gengu í einhvern hinna þingflokkanna, t.d. Hreyfingarinnar, sem þá yxi úr þriggja manna þingflokki í fimm. En mest yrðu áhrif þeirra ef þau verða til þess með liðsinni fleiri úr órólegu deildinni, að hrekja fyrstu hreinu vinstjórn Íslandssögunnar frá. Þá má segja að þau hefðu haft verulega mikil áhrif.

Það er líka eina skiljanlega markmiðið með háttarlagi þeirra. Það er öllu fórnandi fyrir að koma í veg fyrir að samninganefnd Íslands um aðild að Evrópusambandinu komist að niðurstöðu við samningaborðið og að þjóðin fái að taka afstöðu til slíks samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau óttast að þjóðin segi já þegar hún metur hagsmuni sína að samningum gerðum.

Lýðræðisást þessara sjálfskipuðu róttæklinga er nefninlega lítils virði þegar kemur að möguleikum þjóðarinar í Evrópusambandsmálum. Þá má fórna lýðræðinu, til að standa við hlið erkiíhaldi allra flokka í skjaldborginni um sérhagsmuni 50 til 60 eigenda fiskistofnanna og 19. aldar búskaparhætti í landbúnaði.

Ljótt er þeirra lýðræði og óskiljanleg þeirra "róttækni".

Garðar Hólm

Nú hangir allt á öfgunum

Nú þegar Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason hafa formlega staðfest að þau eru ekki stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, hangir líf hennar enn meira en áður á öfgafólkinu Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni. Það er ekki hægt að reiða sig á það fólk. Þau hljóta að vera á útleið.

Þetta þýðir að núverandi ríkisstjórn getur ekki átt langt eftir. Annað hvort kemur nýr flokkur inn í ríkisstjórnina eða það verður kosið á næstunni - nema nú sé loksins komin upp staðan sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur beðið eftir og hann skipi utanþingsstjórnina. Opni skúffuna og nái í ráðherralistann sem hefur legið þar all lengi.

Hinum róttæku andspyrnumönnum í VG hefur loks tekist að verja hagsmuni LÍÚ og íhaldsbændaforystunnar. Þau hafa tryggt að nöfn þeirra afmást aldrei úr stjórnmálasögu Íslands.

Garðar Hólm