Wednesday, April 6, 2011

Miklar líkur á stjórnarslitum um helgina

Flest bendir til að hatursfullur og rangfærður málatilbúnaður svo kallaðs Nei-liðs hafi náð tökum á særðri og reiðri þjóðinni og dregið nægjanlega ull fyrir augu meirihluta hennar að þriðju Icesave samningarnir verði felldir á laugardag. Þar með hafa kjósendur tekið undir vandtraust Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands á þinginu og ekkert annað fyrir forsætisráðherra að gera en segja af sér og óska eftir því að forsetinn að þing verði rofið og boðað til kosninga.

Eins og þeir sem fylgst hafa með stjórnarskrárbreytingum forsetans undanfarin misseri gera sér grein fyrir, er alls ekki víst að forsetinn verði við þessari beiðni forsætisráðherra. Mun líklegra er að sögufíkillinn Ólafur Ragnar sjái enn einn leik á borði við að skrá sig á spjöld Íslandssögunnar, með því að draga upp listann sinn yfir utanþingsráðherra.

Í kurteisisskyni mun hann fyrst athuga ef hægt verður að mynda annan meirihluta á þinginu, sem ekki verður hægt ef þingflokkar núverandi stjórnarflokka vilja ekki í nýja stjórn. Þá mun forsetinn til málamynda spyrja forystu núverandi stjórnarflokka hvort þeir gætu hugsað sér að verja minnihlutastjórn falli. Ef svarið við þeirri spurningu er einnig nei, mun hann skipa utanþingsstjórn og fara þar með eins og oftast áður eftir þeirri rödd frá lýðnum sem hann telur líklegasta til að afla honum fylgis til endurkjörs í júní á næsta ári og gleymsku á klappstýruhlutverki hans í útrásinni.

Það yrðu mikil mistök hjá Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni að halda stjórnarsamstarfinu áfram ef Icesave samningarnir verða felldir. Ef meirihluti þjóðarinnar fellir samningana, er eðlilegt að hún fái þing og ríkisstjórn sem hún telur að geti leyst úr þeim gríðarlegu úrlausnarefnum sem þjóðin á við að glíma. Má þá einu skipta hvort það er forsetastjórn eða ný stjórn sem byggir á meirihluta á nýkjörnu þingi. Við þær aðstæður er eðlilegt að þjóðin fái yfir sig stjórn sem hún á skilið, sem að öllum líkindum yrði stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks miðað við kannanir, nema eitthvað nýtt afl kæmi fram í kosningum og slægi harmleiknum upp í algeran farsa.

Af  Icesave samningum felldum liggur beinast við að forsetinn og þeir flokkar sem hafa mest haft sig í frammi um að fella þá, fai að spreyta sig á að koma Icesave málum í höfn fyrir dómstólum og taka til í rjúkandi rústum efnahagslífsins; rústum sem hvort eð er eru þeirra. Þá hlýtur réttlætinu að vera fullnægt.

Garðar Hólm

No comments:

Post a Comment